05 janúar 2009

Ætlaði eiginlega ekkert að nenna að skrifa svona áramótablogg, aðallega af því að ég fékk gullfiskaheila við fæðingu og á erfitt með að muna það sem gerðist í nóvember og ekki séns að ég gæti munað eitthvað frá því á síðasta skólaári! En ég skipti um skoðun og fór yfir bloggið mitt allt síðasta ár. Komst að því að það hefur bara eiginlega ekkert merkilegt skeð allt þetta ár, svo ég ætla bara að skrifa um eitthvað ómerkilegt :)

Í fyrsta mánuði ársins dró helst til tíðinda að ég missti næstum því af fluginu frá Osló til Stavanger. Gleymdi að stilla klukkuna á norskan tíma…

Febrúar fór betur. Fann mér voða fínan kjól á 70 norskar krónur, spilaði í honum á Shellpris tónleikunum með hljómsveit skólans, tónleikar sem gengu með yfirburðum vel.

Í mars fór ég á þjóðlagatónlistarnámskeið í Voss, uppgötvaði þar að mér finnst þjóðlagatónlist æði og ákvað í framhaldið að mig langar að búa í Færeyjum í smátíma. Svo átti ég afmæli og ég fékk stafrænt sjónvarp, elskaði það alveg þartil í haust, því ég var samningsbundin og án sjónvarps og þarf því að borga helvítis draslið þar til í mars án þess að nota það…

Í apríl skrapp ég til Íslands, óvænt fyrir alla nema pabba og Hrafnhildi. Fór á árshátíð LV og sundmót hjá Hrafnhildi og eitthvað fleira. Svo komst ég að því að hjólið mitt, tæplega 1 og ½ árs gamalt, var ryðgað í klessu og borgaði sig ekki að gera við það.

Í byrjun maí kom sumarið, en fór mjög fljótt aftur. Seinni hluti mánaðarins snerist um bongóblíðu, drauma um strandferðir og bölv yfir öllum prófunum sem ég þurfti að læra fyrir í stað þess að fara á ströndina. Nema í bláendann þegar jarðskjálfti hvolfdi Hveragerði næstum því, þá leitaði hugurinn ansi mikið heim.

Í júní kom ég aftur heim til Íslands, fór að vinna á Hælinu og átti eflaust fyndnasta samtal ársins. Það var við hjúkku nokkra:
Hjúkka: Já…og þú verður hér í sumar? (átti við læknamóttökuna)
Ég: Jámm.
Hjúkka: Og hva, þú ert bara næstum því fullorðin?
(Ég: Ekkert svar)
Húkka: Hvað ertu eiginlega gömul?
Ég: Öööö…26 ára.
Hjúkka: Nú?! Ji, þú ert svo smábarnaleg!
Ég: Ömm, ok…

Júlí einkenndist af skátun, undirbúningi fyrir landsmót og svo landsmótið sjálft. Heil vika á Akureyri, í betra veðri en nokkur gæti ímyndað sér og með skemmtilegasta hóp af krökkum sem ég hef kynnst.

Í ágúst tók ég mér sumarfrí í fyrsta sinn í langan tíma, skrapp vestur í Hörgshlíð ásamt familíunni, fór að veiða upp á vatni og við röltum upp að Myllufossi og fleira. Góðir tímar.
Fór svo út til Noregs í endann, flutti út úr Draumkvæðastíg og inn í skrifstofu á háskólasvæðinu. Týndi lyklunum að bílaleigubílnum, nokkuð sem kostaði mig mikið hugarangur og hellings pening.
Í september byrjaði ég fyrir alvöru í skólanum, byrjaði loksins í lúðrasveit, fékk trompetinn minn (þennan fjólubláa), uppgötvaði að Tverrfaglig Prosjekt væri yfirmáta leiðinlegt og tímafrekt verkefni og spilaði á óperuhátíð með algerlega óhæfum stjórnanda.

Október snerist að miklu leyti um kreppu, áhyggjur af peningum, námslánum og svoleiðis. Fór í útvarpsviðtal og fékk án efa fyndnustu spurningu ársins í einni af útskýringarumræðunum um hugsanlegt gjaldþrot Íslands:
“En af hverju reddar Danmörk ykkur ekki? Þið heyrið jú undir Danmörk!”
Í sama mánuði sá ég Martin Fröst á tónleikum, klárlega einn af hápunktum ársins. Ég varð líka fræg, eða fór allavega í útvarpsviðtal og svo skrapp ég til Íslands.

Nóvember einkenndist af rigningu. Ég tók eitthvað hryllingsmyndakast og horfði á helling af misógeðslegum hryllingsmyndum.
Ég gafst upp á að vera alvöru Íslendingur og keypti mér stígvél. Næstu þrjá daga á eftir kom ekki dropi úr lofti, eða ekki fyrr en systir mín steig fæti sínum á Stavangerska jörð. Þá daga hellirigndi.
Síðustu vikuna vaknaði ég fyrir allar aldir til að sýna grunnskólasýninguna í afskekktustu skólu Rogaland, með tilheyrandi löööngum bílferðum og ógurlega mikilli þreytu.

Í desember gat ég loksins haft áhyggjur af yfirvofandi klarinettprófi og skilum á musikkestetikk ritgerðum. Hafði bæði af, setti met í ritgerðaskrifahraða, 6 klukkutímar gjössovel. Mæli samt alls alls ekki með því, hef næstum meiri áhyggjur af því þegar ég fæ ritgerðina tilbaka…
Fór líka í ferðalag, sem klárlega verður ritað í bækur sem eitt það versta. Skagar hátt upp í ferðalag dauðans ‘05 þegar flugvélin týndist og ég hljóp fram og tilbaka á Kastrup í 10 klukkutíma. Tók lestina til Osló og auðvitað olli rafmagnsleysi fyrir utan Stavanger það mikilli seinkun að tvísýnt var hvort ég næði fluginu. En það hafðist og við tók hringflug um Skandinavíu sem að lokum skilaði mér til Keflavíkur.
Jólin mín voru góð, fékk samt fullt af veikjum, gubbupest, flensu og kvef. Náði mér nokkurn veginn á strik og fékk svo aftur kvef.
Áramótin voru líka skemmtileg, skaupið var örugglega allt í lagi, mér fannst það allavega fyndið, en minnið mitt (eða öllu heldur skortur á minni) sameinað með búsetu í öðru landi gerir það að verkum að ég veit sjaldnast hverju er verið að gera grín að.

Við blasir svo nýtt ár, veit voða lítið um hvað ég mun hafa fyrir stafni, þó nokkrir hlutir séu nú þegar niðurnjörfaðir. Fyrst ber að nefna ferð til London, sem hefst nú á miðvikudaginn. Þar verður hápunkturinn klárlega heimsókn til Howarth of London, þar sem ég ætla að festa kaup á A-klarinetti og nýju munnstykki, úrvalið hjá þeim af munnstykkjum er alveg til að deyja fyrir. Hitt sem mig hlakkar til er Oxford Street, en þar er víst húdsj bókabúð og tónlistarbúð, hef ekki gert fleiri plön, býst við því að þetta þrennt taki mestan partinn af deginum...
Næst á eftir er endurtekning á Befriad söngleiknum, í Kristiansand og svo bachelortónleikar í vor.


Berglind @ 01:49
|


links

ásta
bára
guðjón
kristjana
mamma
sóley
valur


ólíver dór, emma dís og írena dúa
auðunn ingi og oddur olav
brynjar þór
iðunn hekla

quotes

Grace: Follow the logic Will. First we're nice to him, suddenly we're picking up his newspaper, then we're watering his plants. Before you know it, there's a fire in the building and we're the ones who have to make sure he "got out okay." I'd rather find out on the evening news, thank you.

  • Will & Grace


    Isabella Swan: How old are you?
    Edward Cullen: Seventeen.
    Isabella Swan: How long have you been seventeen?
    Edward Cullen: A while.

  • Twilight


    Manni: Ef þú tekur mig ekki með, þá öskra ég af öllum lífs og sálarkröftum.
    Nonni og Manni


    Haraldur: Hugsaðu vel um fólk, Manni, ekki illa. Annars líður þér sjálfum illa.
    Nonni og Manni


    archives

    febrúar 2006
    mars 2006
    apríl 2006
    júní 2006
    júlí 2006
    ágúst 2006
    september 2006
    október 2006
    nóvember 2006
    desember 2006
    janúar 2007
    febrúar 2007
    mars 2007
    apríl 2007
    maí 2007
    júní 2007
    júlí 2007
    ágúst 2007
    september 2007
    október 2007
    nóvember 2007
    desember 2007
    janúar 2008
    febrúar 2008
    mars 2008
    apríl 2008
    maí 2008
    júní 2008
    júlí 2008
    ágúst 2008
    september 2008
    október 2008
    nóvember 2008
    desember 2008
    janúar 2009
    febrúar 2009
    mars 2009
    apríl 2009
    maí 2009
    september 2009
    nóvember 2009
    desember 2009
    september 2010

    credits

    Skin by: sixseven
    Powered by: blogger
    Powered by: haloscan