30 apríl 2007

Var á fyrsta gegnumrennsli á fiðlukonsertinum sem ég er að spila í. Hann eiginlega kom bara soldið á óvart, þó það hafi að vísu vantað allt brass utan eitt horn og sólófiðluna, þá var þetta bara alltílæ, ég er með alveg helling af sólóum og þögnum...alveg heeeeelling af þögnum. En sú sem spilar 2. klarinett er með ennþá meira af þögnum, þannig að ég get svosem ekki kvartað...mikið ;) Við sátum alveg sveittar við að telja 1,2,2,2,3,2,4,2,5,2 osv... Sé fram á að dreyma tölur í næstu viku ;)
En já, konsertinn er bara fínn, ekkert zurg, zarg, pling, plong eins og nútímatónlist vill oft vera heldur alveg laglínur og úm-pa (og úm-pa-pa og úm-pa-pa-pa, um að gera af hafa tilbreytingu í þessu), verð að viðurkenna að mig hlakkar pínu til, að heyra hann með fullsetinni hljómsveit og sólófiðlunni :)

Svo lenti ég í einu ferlega skrítnu um daginn, í strætó... Verð eiginlega að setja upp aðstæður... Here it goes:
"Hugsaðu þér að þú sért að koma inn í strætó. Þú lítur yfir bílinn og sérð að í fremstu sætunum situr fólk, þannig að þú labbar fram hjá þeim. Í aftari hlutanum eru fleiri sæti og sitja nokkrir þar, en ekki eru nærri öll sætin upptekin. Tvö fremstu sætin eru auð, í næstu röðum sitja svo ein og ein manneskja sitthvoru megin við ganginn, í annarri röð hægra megin situr stelpa, sem geymir bakpokann sinn og innkaupapoka í sætinu við hliðina á sér, hinu megin er önnur stelpa en sú er bara með litla tösku sem hún heldur á. Nú ertu frekar stór og mikill maður, svo þú nennir kannski ekki að fara alveg aftast..."
Og svo kemur spurning: Hvar sestu?
Ég persónulega hefði sest í annað auðu sætanna alveg fremst. En nei, ég lék hlutverk stelpunnar með bakpokann og innkaupapokann í þessu leikriti. Svo kemur inn maður, vel stór og þykkur og sest við hliðina á mér!! Siríöslí! Sætið fyrir framan mig og þar hinu megin við ganginn voru auð og stelpan hinumegin við ganginn var bara með eina litla tösku, en kallfjandinn þurfti að setjast við hliðina á mér! Þar sem ég kom ekki bæði innkaupapokanum og bakpokanum í kjöltunni, þá "neyddist" ég til að hafa innkaupapokann (sem bæðevei, innihélt allskonar kaldar og frosnar matvörur) á lærinu á honum! Vona að löppin á honum hafi kulið og hann sé með stóran svartan blett á lærinu! Svo í þokkabót andaði hann svo hátt að það hljómaði næstum eins og hrotur...
Fattaði ekki fyrr en eftir á að auðvtiað hefði ég átt að standa upp og færa mig sjálf í sætið fyrir framan, það hefði sko verið þokkalegt feis ;)


Berglind @ 23:05
|



26 apríl 2007

Það er hætt að rigna! og komið sumar! Hitinn stökk upp í 15 gráðurnar, sama dag og ég fékk pakkann með lopapeysunni minni, sem ég gleymdi heima... Stundum finnst mér eins og guðirnir hlæji að mér...
Í dag tóku tré bæjarins upp á því að blómstra (ef það má segja svoleiðis um tré, annars bara getiði notað það orð sem þið viljið). Veit ekki hvort ég hafi bara ekki tekið eftir því í rigningunni en skyndilega er bara allt orðið yfirþyrmandi grænt! og þá tekur maður líka eftir því hvað er hrikalega mikið af gróðri hér...
Þegar ég var í Washington var ég ákaflega hrifin af cherry blossom trjánum, held að þau heiti kirsuberjatré á íslensku, og tók ófáar myndir af þeim (myndir sem kannski verða birtar þegar ég kem heim í sumarfrí, því ég gleymdi usb-snúrunni heima). Í dag komst ég svo að því að hér eru bara æði mörg kirsuberjatré... Þannig að ég er búin að vera váandi í allan dag :)
Spilaði líka á píanóseminar í dag. Klúðraði mig einhvern veginn í gegnum það. Nei, held að það hafi gengið, allavega hef ég spilað lagið verr ;)
Svo fór ég að kenna, nú held ég að ég geti með vissu sagt að ég sé búin að læra nöfnin á öllum nemendunum mínum. Þau tvö síðustu komu í dag, tvær stelpur sem ég vissi alveg hvað hétu, bara ekki hvor hét hvað... En nú er ég búin að læra það :) Sko mína, og alveg mánuður eftir af skólaárinu! :)


Berglind @ 23:02
|



25 apríl 2007

Nei, heyrðu nú mig... er búin að reyna í marga marga daga að komast hér inn og svo bara allt í einu tek ég eftir einhverri stiku þarna uppi um að ignora skilaboðin sem ég fékk um að síðan væri ekki örugg, og þá bara voilá! Komin inn...

Og þá hef ég auðvitað ekkert að segja ;)

Eða jú...dagurinn í dag er sko súper, allavega fyrir sjónvarpssjúklinginn mig. Var að enda við að horfa á Lost, Ugly Betty og Gilmore Girls (og auðvitað Americas Funniest Home Videos)...
Með þessum svakalega skammti af sjónvarpi fylgdi að sjálfsögðu slatti af auglýsingum, misskemmtilegum. Telenor stendur sko alltaf fyrir sínu og ég ætla sko ekki að skipta um símafyrirtæki, svo lengi sem þeir standa sig svona vel í auglýsingagerð!
Svo er kominn nýr svitalyktareyðir frá Nivea. Veit ekki hvort þeim fannst konur ekki hafa nógu marga líkamshluta til að hafa áhyggjur af, en þeir allavega fundu upp á því að koma með svitalyktareyði, eða já, veit ekki hvort hann hefur eitthvað með svitalykt að gera, en hann á að gera handarkrikann fallegan!! Á bara ekki til eitt einasta...
Önnur skemmtileg auglýsing er frá Lilleborg. Lilleborg er eitthvað fyrirtæki sem selur allskonar krem og olíur frá framandi löndum. Rakst reyndar fyrst á þetta útí búð og brosti alveg út í annað. Ein serían frá þeim er nefnilega inspíreruð frá Íslandi og þeirri hefð Íslendinga að baða sig í heitum hverum (orðrétt úr auglýsingunni). Serían heitir því skemmtilega nafni Heitur Pottur (sem fyrirtækið vill meina að þýði heitur hver...), sem væri nógu asnalegt í sjálfu sér, en norski framburðurinn aflagar nafnið svo að það verður það fyndið að ég flissa í hvert einasta skipti, meðleigjendum mínum til mikillar skemmtunar... Ég meina, ef þið heyrðuð sjónvarpið segja Hædúr Poóddúr, mynduð þið ekki flissa?!


Berglind @ 22:55
|



22 apríl 2007

Ómæ...
Kveikti á sjónvarpinu áðan... Verð að segja að Norðmenn halda greinilega meistaramót í öllu...!
Núna er verið að sýna frá Noregsmeistaramótinu í innibandí!!! Þússt, svona eins og í grunnskóla íþróttatímunum, þegar manni var rétt kylfa og hamstrabolti og svo átti maður að hlaupa á eftir boltanum og reyna að skora í oggulítið mark hjá hinu liðinu. Þetta er alveg þannig, markmaðurinn situr á hnjánum, í hálfgerðri apastellingu, og bíður eftir að reyna að verja boltann, á meðan hinir hlaupa um á eftir boltanum og slást um hann... Ég sver að ég hélt að þetta væri tilbúin íþrótt sem gerði krökkum kleift að kynnast aðeins íshokkí... En neinei, allavega eru haldin meistaramót í þessu.


Berglind @ 15:43
|


Fór að versla í dag, ætlaði sko bara að kaupa það sem mig vantaði og það tókst alveg...næstum því.
Sléttujárn bættist óvænt við á listann í morgun, mitt kæra sléttujárn hefur greinilega gefið upp öndina þegar ég reyndi að nota það í Bandaríkjunum eða eitthvað, keypti eitthvad Remington sléttujárn sem búðarkallinn mælti með, þegar ég kom heim og fór að opna það - haha, það fylgir dvd diskur með leiðbeiningum um hvernig á að gera krullur, súperslétt og hitt og þetta ;) ammrískt!
Svo keypti ég bara það sem mig vantaði, plús eina skó *roðn*... en hei, maður á aldrei of mikið af skóm! Mig er bara búið að langa í svona skó svoooo lengi og þeir bara blöstu við mér í búðinni og grátbáðu mig um að kaupa sig... og ég kann ekki að segja nei, ekki einu sinni við sjálfa mig! Þetta eru hvítir Chuckarar (Converse Chuck Taylor's), gasalega sætir :) Konan í búðinni vildi endilega selja mér eitthvað sprey sem á að verja þá gegn drullu, af því að þeir væru nú hvítir... Ég hélt nú að mig vantaði ekki svoleiðis, ég meina, eiga chuckarar ekki að vera soldið drullugir?! Allavega finnst mér það...


Berglind @ 00:48
|



20 apríl 2007

Gleðilegt sumar!
Þó svo að sumarið sé löngu komið hér, þá snjóaði nú samt á sumardaginn fyrsta. Svona ekta sumarsnjó, stór snjókorn sem eru vel greinileg í loftinu en alveg sama hversu mikið og lengi snjóar, aldrei sést neitt á jörðinni...

Og í tilefni þess að sumarið sé komið verða næstu tveir dagar undirsettir af verslun. Í dag keypti ég flug heim, prófdagsetningarnar voru nefnilega gefnar upp í gær (síðasta próf 8. júní) og ég fékk staðfestingu á því í dag hjá tónlistarsögukennaranum, sem er líka sá sem allt veit, að mér væri alveg óhætt að panta flug eftir 8. júní. Sem ég og gerði, kem heim mánudaginn 11, með Iceland Express, sem eru að fara að byrja að fljúga til og frá Osló :)
Á morgun er svo stefnan tekin á IKEA og Kvadrat, en þar ætla (ætla ætla!) ég bara að kaupa nauðsynlega hluti. Er að hugsa um að skrifa á hendina á mér "ertu viss um að þig vanti þetta?!" bara svona til öryggis... Ég er nefnilega svo mikill sökker í búðum, löngunin vinnur sjálfsagann - by far.

Krakkarnir í skólahljómsveitinni eiga að spila í skrúðgöngu á 17. maí. Þau eru byrjuð að æfa marsana sína og vorum við að spila yfir þá og kíkja á nóturnar á grúppuæfingunni í gær. Svo vorum við líka að tala um hvernig maður gæti komið í veg fyrir allskonar hluti, setja teygju á nóturnar, svo þær fjúki ekki og reima skóna vel, svo maður detti ekki um reimarnar eða labbi upp úr skónum, setja teygju í hárið, svo það fjúki ekki í andlitið eða munninn á manni og þar fram eftir götunum. Svo fór umræðan yfir í óhappasögur úr skrúðgöngum. Ég held að sagan af bassatrommaranum sem steig ofan í opið niðurfall og týndi skónum sínum hafi staðið hæst upp úr. Bassatrommarar eru nefnilega með svo svakalega óheppilegt hljóðfæri þegar kemur að skrúðgöngum. Risastór tromma sem er sett beint framan á mann, það kallar alveg á óhöpp, hvort sem það er gat í götunni, eða sterkur vindur ;) ...ég verð sífellt meira glöð yfir að hafa valið klarinett...!


Berglind @ 12:59
|



18 apríl 2007

Stelpan sem á heima á efri hæðinni átti afmæli í páskafríinu. Hún varð átta ára og fékk rafmagnspíanó í afmælisgjöf. Hún er búin að læra eitt lag á það, sem hún spilar stanslaust daginn út og inn, afturábak og áfram. En það gleymdist alveg að nefna það að maður verður að byrja á ákveðinni nótu til þess að lagið hljómi rétt. Þannig að hún byrjar bara einhvers staðar á hljómborðinu og spilar svo á hvítu nótunum og fáum við hér í kjallaranum að heyra hinar ýmsu útgáfur af Lisa gikk til skolen, í dúr, moll og allskonar óvenjulegum tóntegundum...

Fór líka í síðasta tímann í BUM í dag. Bum er skrýtin stytting á bibliografi, sem er nafn á skrítnum áfanga. Það er eiginlega ekki hægt að búa til lýsingu á áfanganum, þetta eru eiginlega tímar þar sem við lærum allt sem ekki er kennt í hinum tímunum. Svona sitt lítið af hverju.
Lokaverkefnið var að halda fyrirlestur fyrir bekkinn um kvenkyns tónskáld. Konur hafa nefnilega ekki verið mjög áberandi sem tónskáld gegnum aldirnar. Þó hafa alltaf verið fullt af konum að semja tónlist. Minn hópur gerði fyrirlestur um Ölmu Mahler, konuna hans Gustav Mahler. Við ákváðum að gera eitthvað öðruvísi, svo að við sömdum ljóð. Það er að segja, hinir sömdu ljóð, ég sá um að hlæja að hugmyndunum, því ég get ekki fundið rímorð á íslensku, hvað þá á norsku!
En já, ljóðið varð alveg svakalega fyndið, enda var konan alveg stórmerkileg... Ég nenni engan veginn að snara þessu yfir á íslensku, svo ég læt þetta bara á norsku, fyrir þá norskumælandi einstaklinga sem lesa bloggið mitt. (Rétt upp hend!)

ODE TIL ALMA MAHLER
Alma, Alma, Alma. Heiheihei!
Ingen dame er som deg.
Mange menn har du hatt,
kanskje du skulle fått deg en katt

Kjærligheten blomstret
med Kokoschka, Hollnsteiner og Klimt.
Men til Mahler, Gropius og Werfel
ble du i ekteskapet limt.

Du ville skrive musikk,
men det var det du ikke fikk.
Du skulle være husmor
under Mahlers strenge blikk.

For Alma var en gudinne,
som ingen kunne binde.
Kokoschka fikk henne ei,
laget heller en dukke til seg.

(Smá útskýring hér: Gaurinn lét nefnilega búa til live-size dúkku af Ölmu, sem hann kom fram við eins og lifandi manneskju, hélt fyrir hana veislur og fór með í óperuna og þannig. En dúkkan var því miður eyðilögð í risaorgíu!!)

Sensuren, den var streng.
Du flyttet da din seng,
til Hollywoods by,
for å pröve på ny.

Til syvende og sist,
så var du komponist.
Du skrev 14 verker.
For sopran og andre berter.

Du ga ut noen sider,
alle var de Lieder.
Senromantiske de er
og kanskje littegranne sær.

Mer du hadde på lager
på dine tidlige dager.
Men det andre du hadde kreert,
ble aldri publisert.

Du likte kromatikk,
prövde instrumentalmusikk.
Hörte noen sa
at du også skrev en opera.

Nå har vi snakket bort vår tid,
la oss höre på en Lied.
DJ Leffi, i en fart,
sett på Laue Sommermacht!

Já, er þetta ekki bara frábært ljóð?!


Berglind @ 22:35
|



13 apríl 2007

Tónlistarsögukennarinn minn er soldið skemmtilegur fýr. Hann minnir mig alltaf á ofurhetju, þegar hann kemur. Hann nefnilega klæðist alltaf skósíðum svörtum leðurfrakka, kúrekahatti og dökkum sólgleraugum. Sé hann alveg fyrir mér þeysast um himingeiminn á logandi mótorhjóli þegar dagvinnunni lýkur :)

Annars er nú bara sama góða héðan, veðrið alveg að brillera, sól og um 15 stiga hiti um helgina...
Ég er búin að gera bara það allra nauðsynlegasta síðan ég kom heim, þar inní er sko ekki að pakka upp úr töskunni, hún fær að liggja á gólfinu með nokkrar hrúgur í kringum sig.
En ég er búin að sofa...alveg helling. Má ekki setjast niður án þess að sofna. Byrjaði heimkomuna á því að sofna um leið og ég lagðist á koddann. Vaknaði um hádegið í gær með símann í hendinni. Hafði greinilega sofnað í miðri aðgerðinni að stilla vekjaraklukkuna ;) Svo reyndi ég í gærkvöldi að lesa fyrir tónlistarsögu. Komst ekki niður blaðsíðuna og vaknaði rétt fyrir miðnætti...
Á milli þess sem ég vakna á morgnana og sofna á kvöldin hef ég verið að dotta allt að þrisvar sinnum yfir daginn...
Held að það séu þessi sífelldu tímaferðalög sem fara svona með mig... Aftur um tvo tíma, aftur um fjóra tíma, fram um fjóra tíma, fram um tvo tíma... Sífelld tímaferðalög...!


Berglind @ 16:53
|



12 apríl 2007

Þá er blogger alltíeinu farinn að tala norsku bara...!

Er komin til Stavanger, er ekki byrjuð í skólanum ennþá, því mér tókst að sofa þokkalega yfir mig í morgun og svo var tímanum eftir hádegi aflýst. Verður víst stutt kennsluvika hjá mér, bara tveir og hálfur tími...í tónlistarsögu...

Er að vinna í ferðasögu, mun birta hana von bráðar og hver veit nema að myndir fylgji...?! en þangað til hef ég lítið meira að segja...
Adíós seríós

eða jú, eitt meira hef ég að segja, mér tókst að koma myndum á netið! Að vísu eru Ammríku myndir ekki komnar enn, en þarna getiði séð myndir af húsinu mínu og ströndinni og tröllunum sem eiga heima í næsta garði og fleiru skemmtilegu
og tadaraddaraaaa...hér eru myndirnar: http://picasaweb.google.com/bebba.82


Berglind @ 12:48
|



06 apríl 2007

Jæja, þá er ég búin að versla af mér rassgatið! Fórum í búðir í dag og ég keypti fullt af dóti, samt eiginlega ekkert af því sem ég ætlaði að kaupa...
Gerði neyðarkaup á ipod, af því að mér tókst að gleyma minidisk spilaranum mínum í flugvélinni, sgnidlingurinn ég... Er ógeðslega fúl út í sjálfa mig, sko!
En ég keypti líka skemmtilegt dót fyrir fólk, það eru víst einhverjir soldið fúlir út í mig, þessa stundina (aðrir en leikarar...)
Svo er ég að fara að keyra bílaleigubíl í fyrsta skipti á ævinni, því ég er víst "sú fullorðna" í ungahópnum... Ætlum að keyra til Virginíu og heimsækja Bush Garden, sem er eitthvað gasalegt tívolí... Sa veððu gaman :)
Er að verða ægilega bandarísk, mar, bara virka ekki fyrr en eftir Starbucks bollann á morgnana... Nei, djók, en það er samt ægilega gott að fá sér bolla af heitu kakói (því ég er ekki nógu fullorðin til að drekka kaffi) á morgnana...
En annars virkar internetið bara í nokkrar mínútur eftir að ég kveiki á tölvunni, svo að ég segi bara adíós seríós and a good day to you ma'am :)


Berglind @ 03:59
|



04 apríl 2007

Nú er ég komin til Ammríku... Síðustu 5 daga hef ég verið á ferðalagi í 43 klukkutíma...!
En nú er ég komin á hótelið, síminn minn virkar ekki og þráðlausa netkortið er afskaplega óstabílt, þannig að ekki búast við miklu sambandi frá mér...!

Eyddi helginni á hóteli í Breiðdal, það var sko bara frábært, maturinn var svo góður að ég (og allir hinir, held ég) borðaði allt allt of mikið... Það var einfaldlega ekki hægt að stoppa! Stoppaði í Hveragerði í nokkrar mínútur, var ekki viss hvort ég ætti að hneigja mig eða bara flýja áður en grjótkastið byrjaði ;)

Dagurinn í dag (eða í gær eiginlega) fór svo í ferðalag... og það er sko ekkert auðvelt að komast inn í þetta land, mar! Þurftum að fylla út allskonar blöð og blaðlinga, svara spurningum um hvort við værum að koma inn í landið í glæpsamlegum tilgangi og hvort að við hefðum einhvern tíma stolið barni frá Bandaríkjunum. Svo í við vegabréfskoðunina þurfti ég að gefa kallinum fingraförin af vísifingrunum um leið og hann spurði mig allskonar spurninga og ég varð svo svakalega stressuð að ég gat ekki einu sinni munað hvor var vinstri og hvor hægri...!
En nú er ég komin á hótelið, búin að heimsækja CVS (eða eitthvað...) og er farina ð sofa!


Berglind @ 13:28
|


links

ásta
bára
guðjón
kristjana
mamma
sóley
valur


ólíver dór, emma dís og írena dúa
auðunn ingi og oddur olav
brynjar þór
iðunn hekla

quotes

Grace: Follow the logic Will. First we're nice to him, suddenly we're picking up his newspaper, then we're watering his plants. Before you know it, there's a fire in the building and we're the ones who have to make sure he "got out okay." I'd rather find out on the evening news, thank you.

  • Will & Grace


    Isabella Swan: How old are you?
    Edward Cullen: Seventeen.
    Isabella Swan: How long have you been seventeen?
    Edward Cullen: A while.

  • Twilight


    Manni: Ef þú tekur mig ekki með, þá öskra ég af öllum lífs og sálarkröftum.
    Nonni og Manni


    Haraldur: Hugsaðu vel um fólk, Manni, ekki illa. Annars líður þér sjálfum illa.
    Nonni og Manni


    archives

    febrúar 2006
    mars 2006
    apríl 2006
    júní 2006
    júlí 2006
    ágúst 2006
    september 2006
    október 2006
    nóvember 2006
    desember 2006
    janúar 2007
    febrúar 2007
    mars 2007
    apríl 2007
    maí 2007
    júní 2007
    júlí 2007
    ágúst 2007
    september 2007
    október 2007
    nóvember 2007
    desember 2007
    janúar 2008
    febrúar 2008
    mars 2008
    apríl 2008
    maí 2008
    júní 2008
    júlí 2008
    ágúst 2008
    september 2008
    október 2008
    nóvember 2008
    desember 2008
    janúar 2009
    febrúar 2009
    mars 2009
    apríl 2009
    maí 2009
    september 2009
    nóvember 2009
    desember 2009
    september 2010

    credits

    Skin by: sixseven
    Powered by: blogger
    Powered by: haloscan