![]() |
||||
29 janúar 2008
Í dag er víst kominn 29 janúar í þriðja skiptið eftir að mamma dó. Hún hefði orðið 48 ára, sem mér finnst hálfótrúlegt. Í minningunni er hún alltaf ung, en þegar hún veiktist var hún búin að vera í átaki, eins og hún orðaði það, og var svo hraust og falleg. Mamma var alveg frábær kona, ég var alltaf alveg hrikalega mikil mömmustelpa og það var ekki fyrr en eftir að hún veiktist, að ég áttaði mig á hversu mikið ég treysti á hana. Hún studdi alltaf við bakið á okkur, í öllu sem við vildum gera. Þegar ég vildi flytja til Reykjavíkur og byrja í Tónlistarskólanum í Reykjavík þá var hún eflaust áhyggjufull og efins, að ég væri ein og þyrfti að sjá um mig alveg sjálf, en hún sýndi það ekki. Hún hjálpaði mér að sækja um skólana og finna herbergi og þegar ég flutti var hún meirasegja búin að finna út hvaða strætó ég átti að taka í skólann og allt. Mér tókst að taka réttan strætó, bara í vitlausa átt, en það er önnur saga. Mamma tók þátt í eiginlega öllu því sem við tókum okkur fyrir hendur. Hún var í foreldraráði í lúðrasveitinni, íþróttafélaginu og þegar ég byrjaði í skátunum, var ekki langt þar til hún var komin í þá líka. Hún eyddi heilli nótt vakandi í félagsmiðstöðinni, komin 5-6 mánuði á leið, bara vegna þess að ég ákvað að gista þar “ein”, án vinkvenna minna. Ég var vön að segja mömmu allt og hún var ótrúlega góð í að finna á sér þegar eitthvað var að. Sama hvað hún var að gera, eða hvaða áhyggjur hvíldu á hennar herðum, hafði hún alltaf tíma til að hlusta á mig og hún hafði alltaf góð ráð á höndum. Sumar bestu stundirnar sem við áttum saman, voru sumrin í Hörgshlíð. Þar var “heima” fyrir mömmu. Hún kunni sögur um hvern stein og tún. Einu sinni ákváðum við að labba niður fjallið frá vatninu, ég, mamma og Ástrún, og mamma sagði okkur hverja söguna á eftir annarri um hvernig lífið var í sveitinni þegar hún var ung. Hún sagði okkur frá heimavistinni í Reykjanesi og sauðburðinum á vorin. Þegar hún hitti stelpu í skólanum, bauð henni heim með sér í helgarfríi og eignaðist þar bestu vinkonu sína, hana Rán. Það var eitthvað við hvernig hún sagði frá, allt varð svo spennandi, þó það væri ekki merkilegra en að hún væri að lýsa fötunum sem hún fór í, í fjósið, það varð alveg töfrandi við frásögn hennar. Ég held að ég hafi ekki alveg náð að meta mömmu fyrr en eftir að ég varð eldri. Mér fannst sjálfsagt að mamma kæmi alltaf að ná í mig, þegar ég hringdi, eða að hún var heima eftir skóla og gæfi mér og öllum þeim sem ég dró með mér, að borða. Að hún færi með okkur út í gönguferðir og að leika, eða hjálpaði mér við heimalærdóminn. Ég tel mig afar heppna að hafa fengið að kynnast henni og alast upp hjá henni. Hún var líklegast besta vinkona mín og ein af áhrifamestu manneskjum í mínu lífi. Ef ég næ að setja tærnar þar sem hún hafði hælana, þá tel ég mig hafa lukkast vel í lífinu. Takk, mamma mín, fyrir allt. Berglind @ 22:19
|
|
links
ásta
Grace: Follow the logic Will. First we're nice to him,
suddenly we're picking up his newspaper, then we're watering his plants. Before you know it, there's a fire
in the building and we're the ones who have to make sure he "got out okay." I'd rather find out on the evening news, thank you.
Isabella Swan: How old are you?
febrúar 2006
|
|||
![]() |