![]() |
||||
08 mars 2006
Það gekk eiginlega allt illa frá því ég lenti í Stavanger... Byrjaði á því að fara nokkra hringi með rútunni því ég gerði mér ekki grein fyrir því að rútan keyrir ekki einu sinni fram hjá þeim stoppistöðum sem gefnir eru upp á kortinu nema bílstjórinn sé sérstaklega beðinn um það... Þannig að ég fór með rútunni alla leið niðrí bæ, talaði þá við konuna sem sagðist myndu stoppa bara á bakaleiðinni. Svo á miðri leið kom nýr bílstjóri og hann gleymdi að stoppa við hótelið mitt. En á leiðinni niðrí bæ aftur mundi hann það og ég komst upp á hótel... Daginn eftir var prufuspil, ég átti að mæta kl 9 og ákvað að taka taxa til að koma örugglega á réttum tíma og lenda örugglega ekki í neinu villuveseni. Leigubíllinn fór á vitlausan stað og stal að auki (þeas. ég gleymdi að fá til baka) upplýsingarnar frá skólanum, sem hafði að geyma heimilisfangið (þeas. nafnið á skólanum) og allar upplýsingar um hvaða próf ég ætti að taka, hvar og hvenær... Svo að ég kom í skólann, 250 norskum krónum fátækari, nær hálftíma of seint, missti af kynningarfundinum en rétt náði tónheyrnarprófinu... Sem betur fór voru fleiri Toneheim nemendur að prufuspila (leiðrétting: það voru nær eingöngu Toneheim nemendur að prufuspila, bara ein önnur, sem ég er ekki viss um hvort var stelpa eða kona) og þau sögðu mér allt sem fór fram á kynningarfundinum... Aukaprófin gengu ágætlega, fór í svona viðtal ("af hverju ertu að sækja um, segðu okkur frá þér, hvað ætlarðu þér með þetta nám og svo framvegis") og þá hafði að sjálfsögðu annar kallinn komið til Íslands fyrir 2 árum og ég fékk að heyra ferðasöguna hans, sem ég verð að segja að líktist mjög öllum öðrum ferðasögum, hann sá Gullfoss og Geysi, fór í Bláa Lónið, borðaði á afar dýrum veitingastað í Reykjavík og allt það) Svo kom klarinettprófið... það gekk ekki vel, ég var orðin svakalega stressuð og svo fékk ég lélegan undirleikara (píanónemanda úr skólanum) og hann gat ekki spilað Brahms, nema rosalega hægt. Schumann gat hann spilað en hann varð að einbeita sér svo að nótunum að ég fékk ekkert svigrúm til að gera neitt. Weber gat hann spilað, enda er píanóparturinn frekar einfaldur, honum tókst þó að spila ansi margar feilnótur í sínum milliköflum... Og já, ég get sagt ykkur það að stressaður einleikari og lélegur undirleikari fara ekki vel saman... Undir endann var ég orðin svo stressuð og hálfrugluð eitthvað að ég gat ekki einu sinni lesið af blaði, sem er eitthvað sem ég er verulega góð í venjulega... Viðtalið eftirá fór líka asnalega, kennarinn sem var að hlusta, hann Håkon, sagði fullt af "já, það er nú mikil vinna að vera í háskóla og maður verður að æfa sig mjög vel og blablabla" og ég hefði náttúrulega átt að segja "já, það veit ég og ég tel mig vel tilbúna að takast á við námið og er vön því að vinna mikið og blablabla" en það eina sem ég sagði var ég veit, ég veit... Enda tók ég leigubíl heim, orkaði ekki að fara að villast með strætó, auk þess sem ég þurfti að taka einhverja 2-3 strætóa til að komast heim á hótel... Þegar ég kom heim lagðist ég uppí æðislega rúmið og eyddi restinni af kvöldinu þar og glápti á sjónvarpið... eða alveg þar til ég sofnaði um hálf níu leytið ;) Ferðalagið heim gekk ekki betur... Ég gat tekið rútuna á flugvöllinn á vandræða og tékkað mig inn og Nota bene: ég tékkaði mig inn alveg sjálf. Í þessu ferðalagi (með SAS Braathens) þurfti ég nefnilega hvorki staðfestingarnúmer, flugmiða eða brottfararspjald... Allt sem ég þurfti var greiðslukortið mitt, sem ég borgaði flugið með... Þetta er alveg rosalega þægilegt, maður fær að velja sér sjálfur sæti og allt... en vallavegana... Fluginu seinkaði um klukkutíma. Ég fékk smá deja vu þegar ég ákvað að nota tímann í bréfaskriftir og fjárfesti í einkar smástelpulegu Diddl bréfsefni. Svo settist ég niður við skriftir og uppgötvaði þá að öll skriffæri hafði ég sett í töskuna sem ég tékkaði inn... Upphófst þá leit að penna, en líklegast af því að þessi flugvöllur er agnarlítill (já, ímyndið ykkur alþjóðlegan flugvöll sem er minni en Reykjavíkurflugvöllur: Stavanger Airport vær så god!) þá fyrirfinnst ekki penni á öllu svæðinu, fyrir utan þá sem eru notaðir við búðarborð til að skrifa undir kvittanir og þess háttar... Þannig að allar bréfaskriftir urðu að bíða betri tíma. Fyrir þá sem ekki vita, þá er þetta atvik mjög svipað atviki sem átti sér stað í París, en þá tók ég með mér Sudokubók en engan penna, fann ekki einn einasta penna sem kostaði undir 1000 kallinum, nema einn sem blikkaði og spilaði tónlist, pakkaði svo Sudoku bókinni ofan í tösku á leiðinni heim og fann þá penna í fríhöfninni á Heathrow, sem ég keypti um leið og endaði svo á því að kaupa aðra Sudoku bók því hin var ofan í tösku... En svo ég haldi áfram með þessa ferðasögu: Þá beið ég á flugvellinum í rúma tvo tíma og hélt ég hefði nú heppnina með mér þegar ég fékk töskuna mína fyrst af öllum á færibandinu, fór fram keypti miða í lestina og labbaði beint upp í hana... En ónei! Lestin fór að vísu af stað á réttum tíma og kom á réttum tíma til Eidsvoll (fyrsti stoppistaður á leiðinni til Hamar) en svo fór hún ekkert lengra... Það var pöntuð rúta fyrir okkur og í stað þess að vera komin með lestinni um tvö leytið til Hamar og labba næstum beint upp í strætó, þurfti ég að sitja aftast í rútunni (og getið ímyndað ykkur hversu bílveik ég varð), við komum rétt fyrir þrjú til Hamar og ég þurfti að bíða í næstum hálftíma eftir strætó... Og nú er ég alveg ofsalega glöð að fá heila 4 daga án þess að þurfa að fara eitthvað, engin lest, engin flugvél og þið getið sko bókað að ég mun ekki fara neitt niðrí bæ þessa daga... Berglind @ 21:06
|
|
links
ásta
Grace: Follow the logic Will. First we're nice to him,
suddenly we're picking up his newspaper, then we're watering his plants. Before you know it, there's a fire
in the building and we're the ones who have to make sure he "got out okay." I'd rather find out on the evening news, thank you.
Isabella Swan: How old are you?
febrúar 2006
|
|||
![]() |